Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, gefur kost á sér að nýju í kjöri til formanns sem fer fram í aðdraganda aðalfundar SA, sem verður haldið þann 16. maí.

Eyjólfur Árni hefur verið í stjórn SA frá 2014 og í framkvæmdastjórn frá 2016. Þá hefur hann verið formaður samtakanna frá árinu 2017.

Hann hefur undanfarna þrjá áratugi sinnt stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi, var forstjóri Mannvits hf. og forvera þess í 12 ár til ársloka 2015. Hann hefur síðan sinnt ráðgjafa- og stjórnunarstörfum, en er menntaður byggingarverkfræðingur.

Ráða nýjan framkvæmdastjóra

Viðskiptablaðið greindi frá því þann 30. mars sl. að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, væri að láta af störfum og myndi taka við sem forstjóri Regins. Hann mun taka við starfinu af Helga S. Gunnarssyni í byrjun sumars. Það er því viðbúið að eitt af fyrstu verkum Eyjólfs Árna að loknum aðalfundi SA, verði hann endurkjörinn, verði að ráða framkvæmdastjóra í stað Halldórs.

Halldór Benjamín var ráðinn framkvæmdastjóri SA í árslok 2016. Hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group á árunum 2010-2017. Þá starfaði hann um tíma sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Halldór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og er með MBA-gráðu frá Oxford-háskóla.