Eyjólfur Árni Rafnsson var endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins með 97% greiddra atkvæða en þetta var tilkynnt á aðalfundi samtakanna í dag. Þá fer ársfundur SA fram í Hörpu í dag en Eyjólfur Árni flutti ávarp á fundinum.

Í ávarpi sínu fór hann yfir þær framfarir sem hafa orðið í íslensku samfélagi á þeim 100 árum sem liðin eru frá því að Ísland varð fullvalda ríki en yfirskrift ársfundarins er að þessu sinni Framfarir í hundrað ár.

„Framfarir á fullveldistímanum má einkum þakka þrennu. Landið og hafið hefur reynst ákaflega gjöfult, beislun orkulindanna skapað mikla auðlegð og aukin þekking verið afl mikilla framfara. Það er sérstakt við þekkinguna að nýting hennar stuðlar að frekari vexti hennar. Þekkingin er auðlind sem stöðugt vex. Hún leiðir af sér öfluga nýsköpun og aukna samkeppnishæfni landsins,“ sagði Eyjólfur Árni.

Jafnframt að þessir þættir hefðu skapað þjóðfélag með einhverja mestu velmegun sem þekkist. „En samt fer hluti umræðu í þjóðfélaginu fram með neikvæðum formerkjum eins og hér sé allt í kalda koli. Sífelld leit fjölmiðla og samfélagsmiðla að krassandi fyrirsögnum og upphrópunum skapa bjagaða mynd af veruleikanum. Þetta er áhyggjuefni þótt ekki sé það séríslenskt vandamál,“ sagði Eyjólfur Árni.