*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 8. apríl 2021 13:25

Eyjólfur gefur aftur kost á sér

„Leiðin út úr kreppunni er ekki sú að fjölga opinberum störfum,” segir Eyjólfur Árni í tilkynningu um framboð sitt.

Ritstjórn
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA
Haraldur Guðjónsson

Eyjólfur Árni Rafnsson mun gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) en hann hefur gegnt stöðunni frá árinu 2017. Rafræn kosning fyrir starfsárið 2019-2020 meðal aðildarfyrirtækja SA hefst 14. apríl næstkomandi. Tilkynnt verður um kjörið á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 12. maí.

„Ískyggilegar horfur um langvinnt atvinnuleysi valda áhyggjum. Stærsta áskorun yfirvalda og aðila vinnumarkaðar á komandi misserum verður að vinna á atvinnuleysinu. Þótt efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafi mildað höggið sem kórónukreppan olli til skamms tíma, birtast þær sömu aðgerðir í stóraukinni skuldsetningu og hallarekstri ríkissjóðs. Þar kristallast sú staðreynd að umsvif atvinnulífsins og framleiðslugeta hafa allt að gera með stöðu ríkissjóðs sem aftur stendur undir því velferðarkerfi sem íslenskt samfélag reiðir sig á,” segir Eyjólfur Árni í tilkynningu á vef SA.

„Þessi risavöxnu verkefni verða stærstu viðfangsefni þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir kosningar síðar á árinu. Nú er mikilvægt að allir vinni samstíga að því sameiginlega verkefni að skapa störf hjá fyrirtækjum í atvinnulífinu. Leiðin út úr kreppunni er ekki sú að fjölga opinberum störfum. Þvert á móti eru stöndug fyrirtæki forsenda þess að skapa verðmæt störf. Með því að auka súrefni til atvinnulífsins bætum við lífskjör fólks í landinu.”