*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Fólk 12. júlí 2021 09:35

Eyjólfur ráðinn sparisjóðsstjóri

Eyjólfur Vilberg Gunnarsson hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses.

Ritstjórn
Eyjólfur Vilberg Gunnarsson
Aðsend mynd

Eyjólfur Vilberg Gunnarsson hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses. Hann mun hefja störf hjá Sparisjóðnum í september næstkomandi.  

Eyjólfur er með viðskiptafræðimenntun frá Háskóla Íslands (2002) og með M.Sc. gráðu í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík (2009). Einnig er Eyjólfur að taka löggildingu fasteigna- og skipasala, með skipstjórnarréttindi á skip upp að 45 metrum, vélavarðarréttindi upp að 750 kw og knattspyrnuþjálfararéttindi.

Eyjólfur starfaði í rúm 10 ár fyrir Arion banka, sem forstöðumaður bíla- og tækjafjármögnunar árið 2019, svæðis- og útibússtjóri á Vesturlandi árin 2016-2019, forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta frá 2011 til 2016 og fjármálaráðgjafi fyrirtækja þar áður. Hann starfaði að hluta samhliða meistaranámi við greiningardeild Glitnis og til fjögurra ára hjá Lýsingu sem fjármálaráðgjafi fyrirtækja.

Hann er ekki ókunnur Norðurlandi en Eyjólfur starfaði sem fjármálastjóri hjá Fjallalambi á Kópaskeri á árunum 2002 til 2004 í kjölfar útskrifar úr viðskiptafræði og lærði til stýrimanns á Dalvík árið 1994. Eyjólfur er fæddur og uppalinn í Grindavík og starfaði við störf tengd sjávarútvegi fram að háskólanámi, aðallega til sjós. Undanfarið ár hefur Eyjólfur starfað við eigið fyrirtæki við ráðgjöf til fyrirtækja og sem aðstoðarmaður fasteignasala hjá Gimli.

Eyjólfur á langan starfsferil að baki á fjármálamarkaði, við þjónustu og greiningu á ýmiskonar rekstri, aðkomu að rekstri fyrirtækis tengt landbúnaði og störf í sjávarútvegi veita honum góða innsýn í starfsumhverfi Sparisjóðsins. Hann hefur mikla reynslu af útlánastarfsemi, bæði til einstaklinga og fyrirtækja og hefur setið til margra ára í lánanefndum við ákvarðanir útlána. Þá hefur hann leitt og komið að fjárhagslegri endurskipulagningu fjölda fyrirtækja.