Eyjólfur Sveinsson, sem var fyrir nokkrum árum umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi, hefur náð samningum um sínar persónulegu skuldir upp á hundruðir milljóna króna og verður hann því ekki gjaldþrota.

Einkabú hans var í lok árs 2002 tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur en nú tæpum sjö árum síðar er skiptum á búinu lokið.

Í millitíðinni fékk hann heimild til að leita nauðasamninga og vegna nýrra lagaákvæða um greiðsluaðlögun sem tóku gildi í vor, til að mæta skuldurum vegna bankahrunsins, var hægt að þvinga fram samninga um greiðsluaðlögun og afskriftir.

Í Lögbirtingablaðinu kemur fram að lýstar kröfur í búið námu rúmlega 734 milljónum króna og voru gerðir samningar um greiðsluaðlögun og afturköllun um 65% þeirra. Afgangurinn er afskrifaður.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er hluti þessara krafna til kominn vegna reksturs Fréttablaðsins og þar á meðal eru pappírskaup frá Noregi. Eyjólfur gekkst í persónulegar ábyrgðir fyrir þessum og fleiri skuldbindingum, á sínum tíma.

Í tilkynningu um skiptalokin í Lögbirtingablaðinu segir að Eyjólfur hafi nú fengið bú sitt afhent, eins og það er orðað, til frjálsra umráða að nýju.