Áætlanir Eykon haldast óbreyttar í leit að olíu á Drekasvæðinu og er útlitið er gott að sögn Gunnlaugs Jónssonar, framkvæmdastjóra Eykons. Faroe Petroleum og Íslenskt kolvetni mynduðu hóp sem fékk leyfi frá Orkustofnun til leitarinnar en hópurinn hefur ákveðið að skila in leitarleyfinu. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Ástæðan fyrir því að hópurinn skilar leyfinu er hraunlaga svæði sem skyggir á það sem fyrir er neðan. Mælingar hafa ekki skilað tilætluðum árangri.

Gunnlaugur segir Eykon vera komið talsvert lengra en félagið sem hafi skilað leitarleyfinu. „Okkar niðurstöður með okkar svæði lofa nokkuð góðu. Ég myndi segja að þetta væri jákvætt sem rannsóknir hafa leitt í ljós hingað til. Þetta er olíuleit og hún er áhættusöm og það þarf að fremja mjög miklar rannsóknir í viðbót áður en menn geta komist að endanlegum niðurstöðum.“