Byggingarfyrirtækið Eykt er enn með um 140 manns á launaskrá þrátt fyrir samdrátt á markaðnum á liðnum misserum.

„Við höfum ekki verið að segja neinum upp. Hins vegar höfum aðeins getað bætt við okkur mönnum á síðustu mánuðum, en auðvitað kemur að því að menn þurfi að taka til aftur,” segir Páll Daníel Sigurðsson yfirmaður framkvæmdasviðs. Hann segir að staðan verði endurmetin nú um helgina.

„Við reynum að keyra þetta frá mánuði til mánaðar og það er lítið framundan hjá okkur eins og öðrum. Þó erum við þokkalegir. Við erum að innrétta hér í turninum á Höfðatorgi og erum á ágætis róli fyrir dvalarheimilið Eyr. Þar erum við með um 90 íbúðir í vinnslu og fyrsta afhending fer þar fram 1. desember. Þetta verkefni mun standa fram á næsta sumar. Síðan erum við að byggja við verkmenntaskólann á Sauðárkróki sem stendur líka fram á næsta sumar.

Þó ekki sé mikið framundan, er ekki hægt að kvarta mikið miðað við almennt ástand á markaðnum. Við tökum bara stöðuna um helgina og horfum þá til næstu mánaða,” segir Páll Daníel Sigurðsson.