Ákvörðun matsfyrirtæksins Standard & Poor's um að breyta horfum á þróun efnahagsáhættu á Íslandi úr stöðugum í jákvæðar hefur jákvæð áhrif á fjármögnunarmöguleika bankanna og greiðir okkur leiðina úr gjaldeyrishöftunum. Þetta segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í samtali við Fréttablaðið .

„Þetta er hins vegar lítið skref og til að lánshæfismat ríkis og banka hækki þarf skýrari áætlun að liggja fyrir um hvernig standa á að afnámi gjaldeyrishaftanna,“ bætir hann við. Standard & Poor's breytti einnig lánshæfiseinkunnum stóru viðskiptabankanna þriggja úr stöðugum í jákvæðar og segir Björn að full ástæða sé til að vænta þess að þessum meðbyr muni fylgja hækkanir á lánshæfi ríkisins og einkunnum bankanna ef rétt sé haldið á spilunum.

Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, segir jafnframt í samtali við Fréttablaðið að ákvörðun Standard & Poor's geti haft jákvæð áhrif á aðgengi Íslandsbanka að erlendu fjármagni. Þar hafi þetta þau áhrif að áhugi fjárfesta aukist og geri bankanum vonandi kleift að ná betri verðum sem endurspeglist beint í útlánum til viðskiptavina sem taki lán í erlendri mynt.