LME eignarhaldsfélag (í eigu Landsbanka, Eyris og Marel) hefur undanfarið aukið við hlut sinn í Stork NV og á nú 25,4% hlut í félaginu. Fyrir tæpum mánuði átti LME 19,5% í Stork. Í Morgunkorni Glitnis er bent á að þetta sýnir áhuga stærstu eigenda Marel á að eignast dótturfélag Stork NV, Stork Food Systems.

Greiningardeild Glitnis bendir á að með þessum kaupum hafa líkur aukist á að Marel nái að eignast Stork Food Systems. Til þess að það gerist þarf að selja Stork Food Systems út úr móðurfélaginu Stork NV. Ekki hefur verið vilji til þess á meðal stjórnenda Stork NV en hins vegar hafa nokkrir aðrir stórir hluthafar viljað fara þá leið að skipta móðurfélaginu upp og selja einstök dótturfélög. Evrópska fjárfestingarfélagið Candover hefur sýnt Stork NV áhuga og sett fram óformlegt yfirtökutilboð sem LME og nokkrir fleiri hluthafar hafa opinberlega hafnað. Með nýjustu kaupum LME hafa líkur minnkað á að Candover nái markmiði sínu.

"Rekstur Marel og Stork Food Systems fellur vel saman að okkar mati og myndi hafa lágmarks samþættingarkostnað í för með sér. Fyrirtækin hafa átt í farsælu samstarfi undanfarin ár. Sameinað fyrirtæki myndi verða leiðtogi á heimsvísu í framleiðslu og þróun hátæknibúnaðar til matvælavinnslu með um 15-20% markaðshlutdeild. Ef sameining við Stork Food Systems nær fram að ganga hefur vaxtarmarkmið Marel náðst eins og það var kynnt á aðalfundi snemma árs 2006," segir í Morgunkorni Glitnis.