Íslensk stjórnvöld hafa þekkst boð um þátttöku í samstarfi seðlabanka, fjármálaeftirlitsstofnana og fjármálaráðuneyta Evrópusambandsríkja, en það felur í sér að styrkt verði samstarf þeirra stofnana sem falið er að bregðast við aðsteðjandi efnahagserfiðleikum í hverju landi.

Viljayfirlýsing um samstarfið á milli ríkja ESB tók gildi 1. júní sl. og fól í sér endurnýjun á fyrra samstarfi landanna í þessum efnum. Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, segir að þeim EES-ríkjum sem standa utan Evrópusambandsins, þ.e. Íslandi, Noregi og Lichtenstein, hafi verið boðin aðild að samkomulaginu og hafi íslensk stjórnvöld eftir nokkra ígrundun ákveðið að taka þátt. Kveðst hann telja samstarfið geta aukið líkur á að hægt verði að afstýra fjárhagslegum vandamálum á svæðinu ef þau koma upp.

„Við höfum staðfest aðild okkar og ESB hefur staðfest af sinni hálfu að boðið standi,“ segir Baldur. „Ekki er þó búið að ganga frá öllum lausum endum þar sem Noregur og Lichtenstein hafa ekki gengið formlega frá þátttöku sinni, sem felur þó ekki sér, að mínu viti, að á þeim séu vomur vegna málsins. En af þeim sökum mun formlegur frágangur málsins væntanlega bíða haustsins.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .