Seðlabankinn tilkynnti á þriðjudag um breytingar á reglum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Breytingin felur aðallega í sér að ákvæði gildandi reglna um lágmarks binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma verðtryggðra útlána verða afnumin frá og með 1. júní. Umrædd ákvæði reglnanna hafa verið í gildi frá því seint á síðustu öld. Frá árinu 1996 hefur innlánastofnunum verið óheimilt að bjóða upp á verðtryggða innlánsreikninga með minna en þriggja ára bindiskyldu. Tveimur árum síðar var innlánsstofnunum svo gert óheimilt að binda verðtryggð útlán í skemmri tíma en fimm ár.

Í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins fagnar Benedikt, Gíslason, bankastjóri Arion banka, þessari breytingu. Hann segir fullsnemmt að segja til um hvaða kjör bankinn verði með í boði á verðtryggðum innlánareikningum í kjölfar þess að breytingin tekur gildi. „Það gildir það sama um þetta og annað, það mun ríkja mikil samkeppni milli bankanna um að bjóða viðskiptavinum góð kjör. Samkeppni er þegar mikil á innlánamarkaði og þetta mun bara auka hana enn frekar.“

Heyrst hafa vangaveltur um það hvort bankarnir sjái sér hag í að bjóða upp á verðtryggð innlán til skamms tíma þar sem þá skorti verðtryggðar eignir á móti. „Þarna skiptir samkeppnin aftur öllu máli því bankarnir þurfa að keppast um að bjóða upp á góð kjör á verðtryggðum útlánum til að eignast meiri verðtryggðar eignir á móti verðtryggðum innlánum, sem eru skuldbindingar á efnahagsreikningi banka,“ segir Benedikt, spurður út í þessar vangaveltur.

„Þessir tveir þættir, samkeppni á innlánamarkaði og þörf bankanna fyrir að stýra verðtryggingajöfnuðinum með því að sækja meiri verðtryggðar eignir á móti verðtryggðum innlánum, gera það að verkum að kjör fyrir lántakendur ættu að verða betri en áður. Það eru fá hagkerfi í heiminum sem njóta þess að vera með tvö skilvirk vaxtakerfi, annars vegar vaxtakerfi breytilegra óverðtryggðra vaxta og hins vegar breytilegra verðtryggðra vaxta. Þessar breytingar munu auka enn frekar skilvirkni í miðlun fjármuna í gegnum bankakerfið og fjármálamarkaðinn í heild, sem er í þágu viðskiptavina,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.