Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar verði samþykkt, en það felur í sér annars vegar umbætur á bótakerfi ellilífeyrisþega og hins vegar upptöku starfsgetumats í stað örorkumats.

Varanleg aukning ríkisútgjalda

Segir í umsókn samtakanna um frumvarpið að þó frumvarpið feli í sér varanlega aukningu ríkisútgjalda sem nemi 5 milljörðum á ári, þá vegi á móti ávinningur ríkissjóðs af hækkun lífeyrisaldurs og aukinnar atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja.

Þó taka samtökin það fram að þau séu algerlega andvíg því að fjármagna auknar lífeyrisgreiðslur með hækkun tryggingargjaldsins, telja þau að ekki eigi að leggja á þann skattstofn auknar byrðar af breyttrar aldurssamsetningar og mikillar tíðni örorku.

Aukinn sveigjanleiki

Samtökin segja upptöku starfsgetumatsins löngu orðið tímabæra en hún geti leitt til aukinnar atvinnuþátttöku öryrkja og minni greiðslna örorkulífeyris til lengri tíma. Er stefnt að því að þriggja ára aðlögunartími verði fyrir upptöku breytts mats, sem felur í sér að auka sveigjanleika fyrir öryrkja til að vinna miðað við sína starfsgetu.

Jafnframt styðja samtökin aukin sveigjanleika í upptöku ellilífeyris og hægfara hækkun lífeyrisaldursins. Felur frumvarpið í sér möguleikann á að fresta töku lífeyris og að taka hálfan lífeyri með frestun hins hluta lífeyrisins.