Eyþór Guðjónsson, sem lék eitt af aðalhlutverkunum í hryllingsmyndinni Hostel, hefur verið ráðinn aðstoðarframleiðandi Hostel II en tökum á þeirri mynd, sem staðið hafa yfir undanfarnar átta vikur, lýkur hér á landi í dag.

Tökurnar fara fram í Bláa lóninu, í líkamsræktarstöðinni World Class í Laugardal og á Ingólfshvoli. Um 30 manna hópur hefur verið hér á landi undanfarna daga í tengslum við tökurnar, sem að sögn Eyþórs eru einungis ?fallegar?.

?Þetta er auðvitað mikill heiður fyrir mig sem nýliða í kvikmyndageiranum en þarna er ég að taka þátt í framleiðslu á stórmynd með virtum framleiðendum og stórum kvikmyndafyrirtækjum. Margfaldir Óskarsverðlaunahafar koma einnig að framleiðslu hennar á mismunandi stigum,? segir Eyþór aðspurður um hvaða þýðingu ráðningin í starf aðstoðarframleiðanda hafi fyrir hann.

?Það var ekki síst fyrir tilstuðlan Icelandair og Icelandair hótela að við gátum sannfært forsvarsmenn dreifingaraðilanna Lionsgate og Sony um að það væri réttlætanlegt að taka upp hluta af myndinni hér á landi. Þeir sannfærðust svo endanlega þegar þeir komu til landsins á mánudaginn og eru afar ánægðir með tökustaði og allan aðbúnað,? segir Eyþór.

Fyrsta mynd Eli Roth, Cabin Fever, var frumsýnd árið 2002. Hún sló í gegn og gerði Eli Roth að einum efnilegasta leikstjóra Hollywood. Næsta mynd hans, fyrrnefnd Hostel, náði svo óvænt fyrsta sæti aðsóknarlista kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum og fór sigurför um heiminn eftir það og sló hverja stórmyndina á fætur annarri út af vinsældalistum kvikmyndahúsanna. Nú er Eli Roth orðinn einn af eftirsóttari leikstjórum Hollywood og skrifaði nýverið undir samning um að leikstýra næstu kvikmynd sem verður gerð eftir bók Stephens King, The Cell.