Hagnaður Eyris Invest eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins er 1.534 milljónir kr. og ávöxtun eigin fjár tímabilsins reiknast ríflega 16% sem jafngildir um 22% arðsemi á ársgrunni segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Nafnvirði hlutafjár Eyris Invest ehf. hefur verið aukið um 10%. Nýtt hlutafé verður að fullu innborgað fyrir árslok 2006. Eigið fé félagsins eftir hlutafjáraukningu og reiknaðan hagnað fyrstu 9 mánuði ársins er um 11,7 milljarðar. Eiginfjárhlutfall reiknast rúmlega 47% og eru engir framvirkir hlutabréfasamningar utan efnahags. Það er stefna Eyris Invest að fjármagna eignarhluta í öðrum félögum til langs tíma. Meðallíftími vaxtaberandi skulda er 4 ár með meginþunga endurgreiðslna 2009 og 2012.

Útgefin skuldabréf sem skráð eru í Kauphöll Íslands með gjalddaga árið 2012 eru að nafnverði 2.600 millj. kr., þar af voru skuldabréf fyrir 1.160 millj. kr. útgefin á fyrstu sex mánuðum ársins 2006.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest ehf. segir í tilkynningu félagsins: ?Fjárhagur Eyris Invest styrkist nú enn frekar með nýju hlutafé og ánægjulegt er að fá til liðs við félagið fleiri öfluga fjárfesta. Afkoma félagsins fyrstu 9 mánuði ársins er jafnframt í takt við arðsemismarkmið. Við höfum áhuga á því að breikka hluthafahópinn með skrefum sem þessum í framtíðinni. Eyrir Invest er nú betur í stakk búið að styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið Marels og Össurar á sama tíma og við freistum þess sem fyrr að auka arðsemi félagsins og draga úr áhættu með fjölbreyttu erlendu eignasafni í samræmi við stefnu okkar".