Í kjölfar hlutafjáraukningar hjá Efni ehf. hefur Eyrir Invest eignast þriðjungs hlut í félaginu. Eyrir og Efni munu vinna saman að því að byggja upp nýjar markaðs- og söluleiðir fyrir íslensk fyrirtæki sem eru að framleiða hágæða vörur og þjónustu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Saman sjá þau fyrir sér að nýta nýjar aðferðir til að byggja upp söluleiðir gegnum netsölu og markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla. „Tíðari ferðir til og frá landinu opna möguleika til daglegra vörusendinga til austur og vesturstrandar Bandaríkjanna og allrar Evrópu. Tækninýjungar gera kleift að notfæra sér aðferðir til að finna það fólk og fyrirtæki sem hefur raunverulegan áhuga á Íslandi og vill kaupa vörur héðan,“ segir í tilkynningunni.

Efni verður í eigu Heiðu Kristínar Helgadóttur framkvæmdastjóra félagsins og Oliver Luckett samfélagsmiðlasérfræðings sem er stjórnarformaður félagsins, og Eyrir Invest.

„Aðgangur að söluleiðum hefur löngum verið ein stærsta hindrunin í uppbyggingu nýrra fyrirtækja á Íslandi. Í gegnum tíðina hafa uppkaup á dreifileiðum iðulega verið eina færa leiðin til þess að komast inn á alþjóðlega markaði og ná uppskölun“, segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest. „Á undanförnum árum hafa verið að byggjast upp nýjar markaðs- og söluleiðir í gegnum internetið og netsölu og við teljum að með samstarfi við Efni og víðtæka reynslu og þekkingu Heiðu og Olivers gefist okkur einstakt tækifæri til að taka þátt í þeirri uppbyggingu.“

“Við erum tilbúin að hlaupa og hefjast handa við að þetta stóra verkefni. Eyrir er frábær samstarfsaðili fyrir okkur Oliver, með langa reynslu og tengingar í íslensku viðskiptalífi sem við munum koma til með að nýta okkur og saman getum við látið góðar hugmyndir verða að veruleika”, segir Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Efnis.