Eyrir Invest hefur tryggt sér langtímafjármögnun frá innlendum bönkum að andvirði samtals 2.100 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Lokagjalddagar lánanna eru á árunum 2016 og 2017. Af upphæðinni bera 2 milljarðar REIBOR vexti að viðbættu 3% vöxtum sem greiðast á sex mánaða fresti með gjalddaga í maí 2015 en framlengjanlegt til 2016. Hundrað milljónir eru á breytilegum verðtryggðum vöxtum, sem nú erum 5,35%, sem greiðast á sex mánaða fresti með gjalddaga í maí 2017.

Til tryggingar lánunum hefur Eyrir veitt lánveitendum veð í skráðum verðbréfum. Í tilkynningu segir að tilgangur fjármögnunarinnar sé lausafjárstýring Eyris Invest og fjárfestingar.

Eyrir er kjölfestuhluthafi í Marel með um 33% hlutafjár og í Stork BV þar sem Eyrir á 17% hlutafjár. „Á síðustu árum hefur Eyrir aukið vægi sprotafjárfestinga í eignasafni sínu. „Kaupa og styðja til vaxtar“ stefna Eyris hefur skilað góðri ávöxtun frá stofnun félagsins árið 2000,“ segir í tilkynningunni.