Hagnaður Eyris Invest á fyrri hluta ársins 2007 nam 2.219 milljónum króna eftir skatt, en það jafngildir 39% ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli.Frá stofnun Eyris Invest á miðju ári 2000 og fram til júníloka 2007 hefur árleg meðalávöxtun eigin fjár numið 59% til samanburðar við 2,6% árlega meðalávöxtun heimsvísitölu MSCI fyrir sama tímabil. Hagnaður það sem af er síðari hluta ársins er lítillega jákvæður þrátt fyrir óróleika á fjármálamörkuðum.

Eyrir Invest hefur á árinu gefið út nýja hluti fyrir samtals 5.627 milljónir króna og fjárhagslega sterkir fjárfestar hafa komið til liðs við félagið, að því er fram kemur í frétt frá félaginu.

Eigið fé félagsins 13. ágúst 2007 nemur um 19.800 milljónum króna en var 11.995 milljónum króna í upphafi árs. Stærstu hluthafar félagsins eru Þórður Magnússon (stjórnarformaður) og Árni Oddur Þórðarson (forstjóri) sem eiga samtals ríflega 51% hlut eftir hlutafjáraukningu.

Eyrir Invest hefur skilgreint fjárfestingu í Stork N.V., sem félagið hefur fjárfest í gegnum LME eignarhaldsfélag, sem kjölfestufjárfestingu á sama hátt og félagið skilgreinir eign sína í Marel Food Systems og Össuri. Eyrir Invest á LME ásamt Landsbanka Íslands og Marel Food Systems og nemur hlutur Eyris Invest í LME 40%.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris um uppgjörið:
?Afkoma Eyris Invest á fyrri hluta ársins er góð. Árið hefur einkennst af miklum breytingum í kjölfestueignum okkar, Marel Food Systems og Össuri, og hefur markast af yfirtökum og samþættingarvinnu í rekstri. Samþættingarvinna sem er nú þegar komin vel af stað innan félaganna mun auka raunvirði þeirra umtalsvert á komandi árum.

Á liðnu ári stofnuðum við LME eignarhaldsfélag ehf., með Landsbanka Íslands og Marel Food Systems. LME er í dag stærsti einstaki hluthafinn í Stork N.V. Við sjáum rými fyrir mikla verðmætasköpun með því að styðja við undirliggjandi rekstur félaga í eigu Stork N.V. og áframhaldandi vöxt þeirra og alþjóðavæðingu, í samræmi við fjárfestingarstefnu okkar.

Á árinu höfum við enn breikkað og styrkt hluthafahóp okkar. Hluthafar okkar eru farsælir frumkvöðlar með margþættan bakgrunn í mismunandi atvinnugreinum s.s. skiparekstri, bankastarfsemi, tryggingarstarfsemi, fiskveiðum, lyfjaframleiðslu og smásöluverslun. Við metum mikils þann stuðning sem fjárfestar sýna fyrirtækinu og stefnu þess.

Óróleiki á fjármálamörkuðum og lækkun hlutabréfaverðs getur skapað tækifæri fyrir fjárhagslega sterka fjárfesta með langtíma fjárfestingar í huga. Horfur í rekstri Eyris Invest eru góðar og arðsemismarkmið félagsins um 20% árlega meðalarðsemi eiginfjár stendur óbreytt.?

A afkoma á fyrri helmingi ársins 2007

Hagnaður Eyris Invest á fyrri árshelmingi 2007 nam 2.219 milljónum króna eftir skatt. Arðsemi eigin fjár tímabilsins reiknast 18% eða 39,2% arðsemi á ársgrundvelli. Þróun hlutabréfamarkaða á Norðurlöndum var jákvæð og ávöxtun eignasafns Eyris var góð. Undirliggjandi verðmæti áhrifafjárfestinga í Marel Food Systems og Össuri eru traust og hafa aukist til muna í samræmi við stefnumörkun félaganna.

Heildareignir Eyris Invest í lok júní 2007 námu 34.873 milljónum króna og hafa hækkað um ríflega 30% frá því í ársbyrjun. Eigið fé félagsins á sama tíma nam 15.312 milljónum króna en var 11.995 milljónir króna í byrjun árs.

Eiginfjárhlutfall í lok fyrri árshelmings er 44%, skattskuldbinding 6% og vaxtaberandi skuldir nema 50% af heildareignum. Engir framvirkir samningar um hlutabréf eru opnir í lok uppgjörstímabilsins.

Eyrir Invest jók hlutafé um 1.177 milljónir króna á fyrri hluta ársins og hefur á þriðja ársfjórðungi enn aukið hlutafé um alls 4.450 milljónir króna, sem verður að fullu greitt til félagsins þann 1. september 2007. Nýirfjárhagslega sterkir hlutafar, segir í frétt frá félaginu, hafa komið til liðs við félagið og fyrri eigendur aukið hlut sinn.

Það er stefna Eyris Invest að fjármagna eignarhluta til lengri tíma. Meðalendurgreiðslutími lántöku í lok júní var ríflega 3 ár en á þriðja ársfjórðungi hefur félagið tryggt sér nýtt fjármagn í gegnum alþjóðlega banka og lengt meðalendurgreiðslutíma lána í tæp fjögur ár.

Eyrir Invest skilgreinir nú eign sína í Stork N.V. sem kjölfestueign. Eyrir Invest telur verulega möguleika á mikilli verðmætasköpun í félaginu sem felast í því að styðja við dótturfélög þess til frekari vaxtar og alþjóðavæðingar í samræmi við fjárfestingarstefnu Eyris Invest.

Fjárhagslegur styrkur

Eiginfjárhlutfall í lok fyrri árshelmings er 44%, skattskuldbinding 6% og vaxtaberandi skuldir nema 50% af heildareignum. Engir framvirkir samningar um hlutabréf eru utan efnahags í lok uppgjörstímabilsins. Meðalendurgreiðslutími lántöku nú er tæp fjögur ár þar sem stærsti hlutinn er á gjalddaga á árunum 2009 og 2012. Nýtt eigið fé á árinu 2007, samtals 5.627 milljónir króna, gefur félaginu aukinn slagkraft til að styðja við frekari vöxt í samræmi við vaxtastefnu kjölfestueigna félagsins auk þess að viðhalda kvikum efnahagsreikningi.

Hluthafar Eyris Invest
Að Eyri Invest stendur sterkur hluthafahópur. Hluthafahópur félagsins  samanstendur af farsælum frumkvöðlum með margþættan bakgrunn í mismunandi  atvinnugreinum s.s. skiparekstri, bankastarfsemi, tryggingastarfsemi,
fiskveiðum, lyfjaframleiðslu og smásöluverslun. Hluthafar sem eftir hlutafjáraukningu eiga yfir 10% hlut í félaginu eru:

Þórður Magnússon 27,7%
Árni Oddur Þórðarson 23,7%
Landsbanki Lux Custody 19,8%
Straumborg ehf 11,9%
Sigurjón Jónsson 11,3%
Aðrir 5,6%

Eignir og skuldir í erlendri mynt

Yfir 95% af tekjum félaga í eigu Eyris Invest eru upprunnar utan Íslands. Eignir umfram skuldir í erlendri mynt í lok fyrri árshelmings 2007 námu 1,1 milljarði króna. Ef eignarhluti í Össuri er talinn með eignum í bandaríkjadölum og eignarhluti í Marel Food Systems talinn með eign í evrum,teljast eignir umfram skuldir í erlendri mynt vera ríflega 20 milljarðar króna, eða um 5 milljarðar króna umfram eigið fé félagins.

Aðalfundur Eyris Invest

Aðalfundur Eyris Invest var haldinn 1. febrúar 2007. Á fundinum voru eftirtaldir kosnir í stjórn og varastjórn; Þórður Magnússon (stjórnarformaður), Jón Helgi Guðmundsson og Sigurjón Jónsson. Steinunn Jónsdóttir var kosinn varamaður í stjórn. Arður sem nam 10% af hagnaði síðasta
árs var greiddur til hluthafa fyrri hluta ársins 2007.

Horfur

Horfur í rekstri Eyris Invest eru góðar. Undirliggjandi verðmæti kjölfestueigna hefur aukist og mun gefa góðan arð í framtíðinni. Árlegt meðalarðsemismarkmið félagsins er 20% fyrir tímabilið 2006-2010, en meðalarðsemi félagsins á árinum 2000-2007 hefur verið yfir 60%.