Eyrir Vöxtur hefur undirritað samning við MIT DesignX, eftirsóttan viðskiptahraðal við MIT háskóla. Stofnendur hraðalsins eru auk háskólans fyrirtæki á borð við Google og Autodesk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eyri Invest.

Samningurinn gengur út á að nýsköpunarfyrirtæki sem Eyrir Vöxtur fjárfestir í fái einnig tækifæri til að fara í gegnum viðskiptahraðalinn. MIT DesignX hefur veitt fjölda fyrirtækja sem eru í leit af hraðri skölun á alþjóðlegum mörkuðum brautargengi. Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í samstarfinu með því að styðja við samstarfið milli fyrirtækjanna og viðskiptahraðalsins með aðbúnaði og aðgengi að sérfræðingum innan Háskólans í Reykjavík.

MITdesignX viðskiptahraðalinn er byggður upp með hliðsjón af ítarlegum rannsóknum og reynslu fyrirtækja sem hafa byggt sig upp frá grunni og sótt á alþjóðlega markaði með góðum árangri. Hraðalinn styður við alhliða viðskiptaþróun og hönnun nýsköpunarfyrirtækja sem og veitir aðgang að fjárfestatengslum og sjóðum hjá samstarfsaðilum hraðalsins.

Eyrir Vöxtur er nýr 6-7 milljarða fjárfestingarsjóður í umsjón Eyrir Venture Management. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru komin af sprotastigi og eru að eða stefna á að byggja upp dreifileiðir á erlendan markað og í erlend fjárfestingatengsl.

,,Við hjá Eyri Vexti viljum með þessum samstarfi við MIT DesignX byggja brýr fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem hyggjast sækja á alþjóðlega markaði og þurfa að vera undirbúin undir að skala sig hratt upp . Með aðgangi að þeirri ráðgjöf, reynslu og tengslaneti sem MIT DesignX viðskiptahraðalinn býður upp á aukast möguleikar nýsköpunarfyrirtækja til muna til að standast þær kröfur sem þarf að standast fyrir þá frumkvöðla sem ætla alla leið með fyrirtækin sín," segir Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar.