Hagnaður Eyrir Invest fyrstu tíu mánuði ársins (að október meðtöldum) nemur 942 milljónum króna. Eigið fé félagsins er nú 30,2 milljarðar og stendur eiginfjárhlutfallið í 40.3%.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að fjárhags- og lausafjárstaða sé sterk. En laust fé og aðrar bankainnistæður nema 8,6 milljörðum króna og meðalendurgreiðslutími lána er 3 ár.

Eyrir Invest er stærsti hluthafinn í Marel með 40% hlut og næst stærsti hluthafi Össurar með 20% útgefins hlutafjár. Marel Food System og Össur hafa skilað metafkomu það sem af er þessu ári, eftir mikinn vöxt undanfarin ár.

Hlutafjáraukning eykur fjárhagslegan styrk

Í afkomutilkynningu frá félaginu kemur einnig fram að samningar hafi tekist á milli NBI (Nýja Landsbanka) og Eyris Invest um að Eyrir Invest yfirtaki eignarhlut NBI í London Acquisition (Stork).

Eignarhlutur Eyris Invest í Stork eftir þau viðskipti er um 17% og greiðir félagið fyrir eignarhlutinn með nýju hlutafé í félaginu. Þar með eignast NBI 27,5% af útgefnu hlutafé í Eyri Invest.

Stofnendur félagsins, feðgarnir Árni Oddur Þórðarson og Þórður Magnússon verða áfram kjölfestueigendur með samtals 37,5% hlut. Upphaflega áttu þeir 100% en hafa smám saman lækkað sinn hlut samhliða stækkun félagsins.

Ekkert tjón vegna falls bankanna

Í tilkynningu félagsins segir eignasafn Eyris Invest sé vel dreift eftir atvinnugreinum og að búist sé við góðum vexti þeirra á næstu árum.

Eyrir Invest hefur fært eignarhlut sinn í Össuri og Marel samkvæmt hlutdeildaraðferð frá og með miðju árinu 2008 og hefur í kjölfarið fengið heimild til að færa bókhald sitt í evrum frá og með janúar 2009.

Félagið verður ekki fyrir neinu tjóni vegna falls íslensku bankanna en það hefur markvisst minnkað almennar stöður á hlutabréfamarkaði frá miðju ári 2006 og þar með takmarkað hlutabréfa- og gjaldeyrisáhættu.