Aðalfundur Marels, sem haldinn var í dag, samþykkti tillögu stjórnar um að greiða arð vegna ársins 2012 upp á 0,97 evrusent á hlut. Jafngildir það um 7,1 milljón evra eða 1,15 milljörðum króna í arð til hluthafa. Eyrir Invest, félag Árna Odds Þórðarsonar, stjórnarformanns Marels, á 33,1% hlutafjár í Marel og fær því í sinn hlut um 380 milljónir króna.

Þá samþykkti aðalfundurinn að ný grein kæmi í samþykktir Marels, þar sem kveðið er á um að hlutfall hvors kyns í stjórn félagsins skuli ekki vera lægra en 40%. Í september taka gildi lög sem kveða á um skyldu til að tryggja þetta. Af sjö stjórnarmönnum Marels eru þrjár konur, eða 43% stjórnarmanna.