Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest hagnaðist um tæpa eina milljón evra, jafnvirði 163 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en árið 2010 nam hagnaðurinn tæpum 52 milljónum evra.

Eyrir Invest er helsti hluthafi Marel með 36% eignarhlut. Félagið var sömuleiðis með helstu hluthöfum stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Félagið seldi eign sína í fyrirtækinu í fyrra.

Í ársuppgjöri Eyris Invest kemur fram að rekstrartekjur hafi numið rúmum 2,6 milljónum evra í fyrra samanbortið fyrir rúmar 53 milljónir í hittifyrra.

Miklu munar að 31 milljóna evra tap varð af verðbréfaeign félagsins í fyrra saman borið við tæplega 65 milljóna evra tekjur í hittifyrra. Þar fellur til 10 millljóna evra tap vegna lækkunar á virði hlutabréfa Össurar frá byrjun árs 2011 og fram að sölu þeirra. Þá lækkaði bókfært virði 17% eignarhlutar Eyris í hollenska félaginu Stork um 16 milljónir evra vegna markaðsaðstæðna á meginlandi Evrópu. Stork á fyrirtækin Stork Technical Services og Fokker Technologies. Af einstökum liðum nam afkoma af hlutdeildarfélögum Eyris Invest rúmum 11,6 milljónum evra í fyrra samanborið við 7,5 milljóna evra tekjur í hittifyrra. Á þessu ári bætast 2,5 milljónir evra, jafnvirði rúmra 400 milljóna króna, þegar Marel greiðir út arð vegna afkomunnar í fyrra.

Heildareignir Eyris Invest námu tæpum 400 milljónum evra í fyrra samanborið við tæpra 407 milljónir árið á undan. Skuldir lækkuðu á milli ára, fóru úr tæpum 253 milljónum evra í 192 milljónir.

Eiginfjárhlutfall Eyris í lok síðasta árs nam 51,2% samanborið við 37,7% í hittifyrra.

Uppgjör Eyris Invest