Árni Oddur Þórðarson
Árni Oddur Þórðarson
© BIG (VB MYND/BIG)
„Fjárhagslegur styrkleiki Eyris er mikill og erum við að kanna nýja og spennandi fjárfestingarkosti hér á landi þar sem við verðum leiðandi fjárfestar auk þess sem rekstrarfélög okkar eru að auka umsvif sín á heimsvísu með innri og ytri vexti.“ Þetta segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest í tilkynningu til Kauphallar. Líkt og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá seldi félagið í dag öll hlutabréf sín í Össuri en Eyrir hefur verið hluthafi síðan árið 2004.

Á sama tíma keypti Eyrir Invest í Marel fyrir tæpan milljarð króna. Eftir viðskiptin á Eyrir um 35,6% í Marel.

Árni Oddur segir í tilkynningu að tilgangur sölunnar á hlutabréfum í Össuri sé að styrkja fjárhag Eyris enn frekar og losa um fjármuni til að beina í ný verkefni, þar sem Eyrir verður leiðandi fjárfestir.

„„Eyrir hefur verið hluthafi í Össuri frá 2004 og stutt dyggilega við vöxt félagsins á undanförnum árum, en lengst af hefur Eyrir átt 20-25% hlut Össuri.  Fjárfestingin í Össuri hefur verið farsæl, velta Össurar á síðustu 7 árum hefur þrefaldast og arðsemi farið vaxandi.  Össur er nú markaðs- og tæknileiðtogi á sínu sviði á heimsvísu.  Stjórnendur og starfsfólk Össurar eiga mikið lof skilið fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst og teljum við framtíð félagsins bjarta,“ segir Árni Oddur.