„Við feðgar stofnuðum Eyri Invest sem einkahlutafélag fyrir tólf árum. Síðan þá hefur hluthöfum fjölgað og nú höfum við tekið það eðlilega skref að breyta félaginu í hlutafélag og gera viðskipti með hlutabréfin að fullu frjáls,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri fjárfestingarfélagsins Eyris Invest. Á hluthafafundi félagsins í dag var samþykkt að breyta félaginu í hlutafélag.

Árni Oddur bendir á að breytingin sé í samræmi við nýja reglugerð Fjármálaeftirlitsins sem heimila lífeyrissjóðum og fagfjárfestum ekki að fjárfesta í einkahlutafélögum. Lífeyrissjóður verslunarmanna keypti um áramótin hlut í Eyri Invest.

Árni Oddur bætir við að nú þegar allar hömlur með hlutabréf Eyris hafa verið afnumdar og samþykkt að skrá bréfin með rafrænum hætti sé opnað fyrir fjárfestingu lífeyrissjóða og fagfjárfesta í félaginu. Hann segir ekki í pípunum að skrá félagið á markað.

Eyrir Invest er stærsti hluthafi Marel með 33% hlut og er Árni Oddur stjórnarformaður þess félags. Þá á félagið stóra hluti í Stork og Fokker Technologies í Hollandi og stofnaði nýverið sprotasjóðinn Eyrir sprotar sem mun halda utan um fjárfestingar félagsins í nýsköpunarfyrirtækjum. Á meðal sprotaeigna Eyris er hlutur í ReMake Electric og Saga Medica.

Eigið fé Eyris er yfir 200 milljónum evra, rúmir 32 milljarðar króna, og virði heildareigna í kringum 400 milljónir evra.