Eyrir Invest ehf. hefur samið við alla eigendur skuldabréfaflokksins EYRI 07 2 um framlengingu og skilmálabreytingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en skuldabréfaflokkurinn var gefinn út 20. ágúst 2007 og var að fjárhæð 3.500 milljónir króna með vaxtagreiðslum á 3ja mánaða fresti og lokagjalddaga 20.ágúst 2009.

Skilmálabreytingin felur í sér að 90% af höfuðstóli verði greiddur 20. apríl 2011 og 10% fyrr. Fram kemur að Eyrir mun eftir sem áður greiða vaxtagreiðslur á 3ja mánaða fresti.

Vaxtaálag er 500 punktar á Reibor eftir skilmálabreytingu. Ekki verður óskað eftir áframhaldandi skráningu flokksins í Kauphöll. Eftir sem áður býr Eyrir við upplýsingaskyldu þar sem félagið er með annan skuldabréfaflokk, EYRI 05 1, skráðan í kauphöll en hann er á lokagjalddaga í maí 2012.

Lykileignir Eyris eru 38% eignarhlutur í Marel Food Systems hf., 20% eignarhlutur í Össuri hf. og um 17% hlutur í hollensku iðnaðarsamteypunni Stork.  Eyrir hefur verið hluthafi í Marel og Össuri frá 2004 og í Stork frá árinu 2006.