Eyrir Invest hefur gert samkomulag við Arion banka og Landsbankann um framlengingu á lánum félagsins til 15. maí 2014 með vaxtagreiðslum á 6 mánaða fresti, fyrst 15. maí 2011.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en um er að ræða fjölmyntalán sem bera 400 punkta álag á LIBOR/EURIBOR. Heildarfjárhæð framlengdra lána er um 150 milljónir evra.

Þá hefur Eyrir Invest ákveðið að gefa út nýjan flokk skuldabréfa sem áætlað er að verði allt að 4 milljarðar króna að stærð. Þegar hefur verið samið um sölu á skuldabréfum úr hinum nýja flokki fyrir ríflega 1 milljarð króna.

Fram kemur að skuldabréfin eru með lokagjalddaga 15. maí 2014 og vaxtagreiðslum á 12 mánaða fresti, fyrst 15. maí 2012. Nýju skuldabréfin eru óverðtryggð með 500 punkta álagi á REIBOR með kvöðum um að eiginfjárhlutfall félagsins sé að lágmarki 25% og að hámarki sé greiddur út 50% arður af hagnaði félagsins.

Sótt verður um skráningu flokksins til viðbótar við skuldabréfaflokk félagsins EYRI 05 1 sem skráður er á Nasdaq OMX á Íslandi. H.F. Verðbréf hefur umsjón með sölu og útgáfu skuldabréfaflokksins.