Eyrir Invest hefur í dag keypt eigin hlutabréf sem nema 9% af heildarúgefnu hlutafé félagins í skiptum fyrir 2,5% hlut í Marel. Viðskiptin eru á milli Eyris og Landsbankans. Skipt er á 100 milljónum hluta í Eyri á genginu 26 krónur á hlut fyrir 18,6 milljónir hluta í Marel á 140 krónur á hlut. Miðað við þetta gengi er markaðsvirði Eyris um 29 milljarðar.

Í tilkynningu frá Eyri er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Eyris, að Eyrir ætli að halda eftir þriðjungshlut sínum í Marel til langframa. Þá segir hann að fjárhagsstaða Eyris sé sterk með heildareignir um 400 milljónir evra og yfir 50% eiginfjárhlutfall. Eyrir ætli að einbeita sér að núverandi kjarnafjárfestingum sem eru auk Marel, Fokker Technologies og Stork Technical Services.

Heildarútgefið hlutafé í Eyri Invest er um 1.108 milljónir hlutir, þar af 100 milljónir eigin hlutir. Landsbankinn á 3,5% hlut í Eyri eftir þessi viðskipti og þar að auki á Horn fjárfestingarfélag, sem er 100% í eigu Landsbankans, 12,5% hlut. Stærstu hluthafar eru Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson og félög í þeirra eigu með ríflega 34% hlut í Eyrir Invest.