Eyrir Invest keypti í dag eigin skuldabréf í fyrir 400 milljónir króna að nafnvirði.

Skuldabréfin eru í flokknum Eyri 05 1. Hann var gefinn út árið 2005 til sjö ára. Skuldabréfaflokkurinn hljóðaði upp á 2,6 milljarða króna og var höfuðstóll á gjalddaga í einni greiðslu í 2. maí á þessu ári. Ávöxtunarkrafa bréfanna var við útgáfu 6,3% til 6,75%. Bréfin voru verðtryggð með 5,5% föstum ársvöxtum og greiddust þeir einu sinni á ári.

Viðskiptin fóru fram á pari, að því er fram kemur í tilkynningu frá Eyri.

Eyrir Invest hefur áður keypt hluta af sama skuldabréfaflokki. Það gerði fyrirtækið í október síðastliðnum þegar Eyrir keypti bréf fyrir 325 milljónir króna að nafnivirði. Á sama tíma tók félagið verðtryggt lán upp á hálfan milljarð króna með breytilegum vöxtum. Kaupin á skuldabréfunum fóru þá jafnframt fram á pari. Í tilkynningu þar sem greint var frá kaupunum í fyrra kemur fram að viðskiptin hafi verið liður í lána- og lausafjárstýringu Eyris.

Á meðal helstu eigna Eyris Invest er tæpur 40% hlutur í Marel, auk stórra eignahluta í Stork Technical Services og Fokker Technologies sem áður tilheyrðu hollensku iðnsamsteypunni Stork. Þá hefur Eyrir hleypt af stokkunum sprotasjóðnum Eyrir Sprotar sem mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Árni Oddur Þórðarson, framkvæmdastjóri Eyris, er jafnframt stjórnarformaður Marel.