Nýsköpunarsjóðurinn Eyrir Sprotar, sem er hluti af fjárfestingafyrirtækinu Eyrir Invest, hefur gert samkomulag um kaup á hlutafé í íslenska tæknifyrirtækinu Mure ehf. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Mure er íslenskt tæknifyrirtæki sem hefur hugbúnaðinn Breakroom í þróun. Er honum ætlað að skapa vinnuaðstöðu í sýndarveruleika, þar sem starfsmaður getur skapað sér vinnuumhverfi eftir eigin óskum.

Hilmar Bragi Janusson, sem situr í fjárfestingaráði Eyris Sprota, verður stjórnarformaður Mure. „Svo virðist sem Mure sé að bjóða rétta tækni á réttum tíma fyrir afmarkaða og vel skilgreinda þörf í vinnuumhverfi. Það á að vera uppskrift að hraðvaxtartækifæri fyrir hæfileikaríkt og vel menntað teymi eins og Mure,“ segir Hilmar Bragi.