Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marel [ MARL ], keypti fyrir um 6,7 milljarða króna í félaginu í nýafstöðnu hlutfjárútboði, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Áskriftir í útboðinu, sem fram fór á genginu 89 krónur á hlut, voru alls 446 fyrir samtals 14,9 milljarða króna að markaðsverði, sem er tæplega 7% umframeftirspurn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu Marel.

Marel fór í hlutfjárútboðið til þess að styðja við kaup sín á Stork Food Systems.

Landsbankinn, næststærsti hluthafi Marel, keypti ekkert í hlutafjárútboðinu og í kjölfar minnkar hlutur bankans hlutfallslega í félaginu.

Í tilkynningu kemur fram að það sé gert til þess að stuðla að dreifðari hlutafjáraeign og auka flot með bréfin.

Danska fjárfestingafélagið Grundvig, þriðji stærsti hluthafi Marel, keypti  fyrir 833 milljónir króna. Helgi Magnússon, stjórnarmaður í Marel [ MARL ] og formaður Samtaka iðnaðarins, keypti fyrir um 134 milljónir króna í hlutfjárútboði Marels, í gegnum eignarhaldsfélögin Hörpu, Hofgarða og Varðberg, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.