Eyrir Invest hefur selt allan hlut sinn í stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður tilkynnt um söluna til Kauphallar von bráðar. Kaupendur eru, allavega að hluta til, íslenskir lífeyrissjóðir. Eyrir Invest hefur verið stór hluthafi í Össuri síðan 2004 og átti 10,25% í félaginu undir það síðasta.

Gengið á bréfum Össurar í viðskiptunum var 193 krónur á hlut sem segir í tilkynningu frá Eyri jafngildi 8,75 dönskum krónum. Fyrir viðskiptin átti Eyrir 46,5 milljónir hluta og því um tæpa níu milljarða króna viðskipti að ræða.

Eyrir keypti einnig bréf í Marel fyrir 868 milljónir króna í dag. Eyrir, sem var fyrir viðskiptin stærsti eigandi Marels með 34,7% eignarhlut, keypti alls 7 milljónir hluti í Marel á 124 krónur á hlut. Eftir viðskiptin á Eyrir tæplega 262 milljónir hluta í Marel, eða 35,6% hlut.

Eru að kanna nýja fjárfestingarkosti

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyrir Invest, segir þetta í fréttatilkynningu sem send hefur verið:

Árni Oddur Þórðarson
Árni Oddur Þórðarson
© BIG (VB MYND/BIG)
„Eyrir hefur verið hluthafi í Össuri frá 2004 og stutt dyggilega við vöxt félagsins á undanförnum árum, en lengst af hefur Eyrir átt 20-25% hlut Össuri. Fjárfestingin í Össuri hefur verið farsæl, velta Össurar á síðustu 7 árum hefur þrefaldast og arðsemi farið vaxandi. Össur er nú markaðs- og tæknileiðtogi á sínu sviði á heimsvísu. Stjórnendur og starfsfólk Össurar eiga mikið lof skilið fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst og teljum við framtíð félagsins bjarta.

Fjárhagslegur styrkleiki Eyris er mikill og erum við að kanna nýja og spennandi fjárfestingarkosti hér á landi þar sem við verðum leiðandi fjárfestar auk þess sem rekstrarfélög okkar eru að auka umsvif sín á heimsvísu með innri og ytri vexti.“

Eyrir hefur verið að styrkja stöðu sína í Marel á þessu ári og selja bréf í Össuri. Um miðjan mars seldi Eyrir hluti í Össuri meðal annars til að fjármagna kaup á bréfum í Marel. Við það tækifæri sagði Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marel, að þeir væru að treysta kjölfestuhlut sinn í Marel.

Vildu afskrá Össur

Á aðalfundi Össurar 4. mars síðastliðinn var samþykkt að afskrá Össur úr íslensku kauphöllinni. Hlutabréf í félaginu voru færð á athugunarlista Kauphallar Íslands og í framhaldinu tekin ákvörðun, einhliða, að halda áfram viðskiptum með bréfin til að verja hagsmuni smærri hluthafa. Lífeyrissjóðirnir voru á móti.

William Demant Invest er stærsti hluthafinn í Össuri og heldur á  um 39,6% hlutafjár. Demant er dótturfyrirtæki danska sjóðsins Oticon Foundation.