Eyrir Sprotar slhf., sprota- og vaxtarsjóður í eigu Eyris Invest,  hefur lokið fyrsta áfanga fjármögnunar sem nemur 2,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Eyrir Sprotar er rekinn af Eyri Invest í samstarfi við Arion banka, en Eyrir og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Aðrir fjárfestar eru lífeyrissjóðir og fagfjárfestar. Sjóðurinn á enn í viðræðum við nokkra áhugasama fjárfesta um þátttöku og er gert ráð fyrir að seinni hluta fjármögnunar verði lokað fljótlega. Arctica Finance annaðist umsjón með fjármögnun Eyris Sprota.

„Það er mjög ánægjulegt að ljúka þessum áfanga í fjármögnun“, segir Örn Valdimarsson framkvæmdastjóri Eyris Sprota. „Við höfum verið að vinna í fjölmörgum áhugaverðum verkefnum undanfarna mánuði og fjármögnun sjóðsins gerir okkur kleift að fylgja þeim verkefnum enn betur eftir. Við væntum þess ennfremur að geta sagt frá fleiri nýjum fjárfestingum innan skamms.“

Þórður Magnússon, formaður fjárfestingaráðs Eyris Sprota, segir nýsköpunarumhverfi á Íslandi í dag afar frjótt og spennandi.

„Umhverfið sem á undanförnum árum hefur verið byggt upp á Íslandi til stuðnings nýsköpun og sprotafyrirtækjum er afar vel heppnað til að byggja upp tæknilega hæfni þessara fyrirtækja. Hins vegar hefur skort fjármuni og getu til að byggja upp sölu og dreifingarkerfi erlendis. Þessi fjármögnun og fjármögnun inn í aðra sprotasjóði bætir úr brýnni þörf til að styðja við uppbyggingu fyrirtækja framtíðarinnar.“