Á kjördæmisráðsfundi sjálfstæðisfélaganna í Norðvesturkjördæmi sem haldinn var sl. laugardag í Borgarnesi, tilkynnti Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri á Tálknafirði, framboð sitt til forystusætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, sem fram fer 21. mars nk.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns .

Þar kemur fram að Eyrún Ingibjörg hefur átt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins sl. tvö kjörtímabil og hefur um árabil sinnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og situr í miðstjórn hans.  Eyrún Ingibjörg er viðskiptafræðingur að mennt.

„Við uppbyggingu samfélagsins þurfum við að horfa til þeirra atvinnugreina sem skila okkur auknum tekjum.  Norðvesturkjördæmi gegnir þar lykilhlutverki, við þurfum að standa vörð um auðlindir okkar og framleiðslugreinar,” segir Eyrún Ingibjörg í fréttatilkynningu um framboð sitt.   „Ég býð fram krafta mína þar sem reynsla mín af sjálfstæðum atvinnurekstri og þekking á landsmálum og sveitarstjórnarmálum mun nýtast Sjálfstæðisflokknum við þá vinnu sem framundan er.“

Eyrún Ingibjörg er gift Tryggva Ársælssyni útgerðarmanni og skipstjóra og eiga þau fjögur börn.