Landsframleiðsla Litháen dróst saman um 12,6% milli ára á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en þetta er mesti samdráttur hagkerfisins í 14 ár eða frá því að byrjað var að mæla landsframleiðslu árið 1995.

Minnkandi iðnaðarframleiðsla, minni eftirspurn eftir útflutningsvörum og lélegt lánshæfismat banka og fyrirtækja í landinu er helst  um að kenna að sögn Retuers fréttastofunnar.

Samdráttur landsframleiðslunnar er nokkuð umfram væntingar en þó hefur hagstofa landsins gert ráð fyrir 10,5% samdrætti á þessu ári. Litháen gekk í Evrópusambandið árið 2004.

„Hagkerfi okkar er að falla í djúpa gjá og það er ekkert sem bendir til þess að það breytist á næstu misserum,segir Gitanas Nauseda, greiningaraðili hjá SEB Bank í Litháen í samtali við BBC í gær.

Hagvöxtur í Litháen nam 8,9% árið 2007, sem þá var met, en dróst saman um 35 í fyrra.

Samdráttur Litháenska hagkerfisins er líklega sá stærsti meðal allra þjóða frá byrjun lausafjárkrísunnar. Viðmælendur Reuters fréttastofunnar óttast að þessar tölur gefi til kynna það sem kom skal, þá sérstaklega fyrir Eystrasaltsríkin, Lettland og Eistland en hagvöxtur í öllum þremur ríkjunum hefur verið með ágætum síðustu ár.

Greiningaraðilar telja að samdráttur í ríkjunum þremur muni nema í það minnsta 10 - 13% á þessu ári. Seðlabanki Eistland hefur þegar spáð 12% samdrætti á þessu ári en fjármálaráðuneyti Lettlands hefur gert ráð fyrir 15% samdrætti.

Eins og áður hefur komið fram hefur hagkerfi Lettlands dregist nokkuð saman. Þar sagði ríkisstjórnin af sér vegna mikilla og ofbeldisfullra mótmæla og AGS hefur komið ríkinu til aðstoðar. (sjá tengda frétt hér að neðan.)

Alþjóðabankinn hefur gefið út skýrslu þar sem gert er ráð fyrir því að A-Evrópa komi hvað verst út úr þeirri fjármálakrísu sem nú hefur riðið yfir heimsbyggðina.