Eyþór Arnalds er sem kunnugt er formaður bæjarráðs í Árborg þar sem Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Það er óhætt að segja að Eyþór og félagar hafi tekið við erfiðu búi þar sem Árborg var skuldum vafið, eins og svo mörg önnur sveitarfélög á Íslandi.

Aðspurður um þetta segir Eyþór að rétt sé að sveitarfélagið hafi safnað miklum skuldum síðustu fimm ár á undan. Það hafi ekki verið erlendar skuldir og að hans mati fór það fjármagn sem tekið var að láni í hefðbundin verkefni, t.d. í skólabyggingar og gatnagerð. Útgjöldin fóru engu að síður úr böndunum og menn misstu sig í eyðslunni.

„Það þurfti að taka á þessu og við sendum skýr skilaboð í kosningabaráttu okkar,“ segir Eyþór.

„Við boðuðum það að við myndum straumlínulaga reksturinn og við höfum staðið við það. Við auglýstum eftir framkvæmdastjóra og réðum bæjarritarann í það starf, og sameinuðum þá tvö störf í eitt. Þar náðum við að spara umtalsvert. Hið sama má segja um aðrar stöður. Það voru 18 stöðugildi í efstu stjórn sveitarfélagsins en þau eru núna níu. Með þessu sendum við þau skilaboð að við myndum byrja á okkur sjálfum. Við samþykktum að fækka bæjarfulltrúum, við höfum ekki farið í neinar utanlandsferðir á vegum bæjarins, við höfum ekki verið með eitt einasta kvöldverðarboð í boði bæjarins o.s.frv. Við hétum því að spara.“

Eyþór segir að á sama tíma hafi verið aukið við þjónustuna í Árborg, t.d. hafi opnunartími sundlaugarinnar verið lengdur, fyllt í tóm leikskólapláss og fleira. Það má heyra á Eyþóri að honum er nokkuð umhugað um alvarlega stöðu sveitarfélaga og hlutverk hins opinbera almennt.

„Það má segja að sveitarfélögin hafi tekið við þar sem ríkið hætti. Upp úr 1990 hætti hlutdeild ríkisins að fara vaxandi en þá tóku sveitarfélögin við,“ segir Eyþór.

„Það er sláandi að sjá það að hlutdeild hins opinbera miðað við þjóðarframleiðslu hefur farið úr því að vera innan við 10% fyrir 100 árum í það að vera meira en helmingur. Það er komið að endalokum vaxtar hins opinbera. Menn eru mjög hrifnir af orðinu sjálfbærni og menn hljóta þá að sjá það að vöxtur hins opinbera er ekki sjálfbær. Ég vona að allir þeir sem unna þessu orði - sjálfbærni - sjái það að þessir peningar eru ekki til. Fækkun starfa hefur fyrst og fremst verið í almenna geiranum en ekki hjá hinu opinbera. Hvernig getur það verið sjálfbært þegar hið opinbera leggur áherslu á að viðhalda sjálfu sér? Kerfið ver þannig sjálft sig á kostnað hins raunverulega hagkerfis.“

------

Fyrir utan það að vera formaður bæjarráðs í Árborg stýrir hann fyrirtæki sem hyggur á frekari fjárfestingar í orkugeiranum. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Eyþór yfir tækifærin og möguleikana í grænni orkunýtingu. Þá tjáir Eyþór sig hispurslaust um skuldavanda og rekstur sveitarfélaga auk þess sem hann rifjar upp gamla tíma úr hugbúnaðarfyrirtækinu Oz.  Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnu tölublöð hér að ofan.