Eyþór Arnalds á að baki nokkra sögu hjá ungum og vaxandi fyrirtækjum. Hann starfaði á sínum tíma hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Oz ásamt þeim Guðjóni Má Guðjónssyni, stofnanda Oz, og Skúla Mogensen, auk þess að verða síðar forstjóri Íslandssíma.

„Oz gat af sér mörg góð afkvæmi, CCP er kannski þeirra þekktast. Þá komu líka mörg góð símafyrirtæki í kjölfar Oz, s.s. Íslandssími sem síðar rann saman við Tal og er í dag Vodafone,“ segir Eyþór í viðtali við Viðskiptablaðið þegar blaðamaður rifjar upp þessa tíma og spyr hvað verði til þess að menn fari úr hugbúnaðar- og fjarskiptageiranum yfir í orkugeirann, en Eyþór rekur í dag þróunarfélagið Strokk Energy sem hyggur á fjárfestingar í verkefnum tengdum orkuiðnaði.

„Þessi fyrirtæki urðu ekki til fyrir tilviljun,“ segir Eyþór.

„Í lok síðustu aldar urðu gífurlegar breytingar á lagaumhverfi annars vegar og tækninni hins vegar. Í tækninni voru að verða gífurlegar breytingar, farsíminn var að festa sig í sessi, internetið var að koma inn á hvert heimili og sum voru farin að nota breiðbandið. Á sama áratug tengdust tölvurnar og síminn varð færanlegur. Það er ekkert mjög langt síðan þessi bylting varð. Á sama tíma var einokun símafyrirtækja rofin og stofnun nýrra símafyrirtækja lækkaði kostnað og bætti þjónustu við heimili og fyrirtæki. Þetta var mjög áhugaverður tími. En ég sagði skilið við Oz 1998.“

Þó svo að vel hafi litið út í byrjun var brotlending þess hörð hér á landi árið 2003. Voruð þið ungir og ævintýragjarnir en um leið óskynsamir?

„Það voru margir snillingar sem unnu hjá Oz,“ segir Eyþór og brosir við.

„Fyrirtækið náði langt í samstarfi við fyrirtæki eins og Intel og Ericsson og vann að hugbúnaði framtíðarinnar. Ég held að flestir þeir sem þar störfuðu hafi góðar minningar frá þeim árum. Þeir eru margir enn að störfum í hugbúnaðargeiranum hjá hinum ýmsu fyrirtækjum. Oz átti sitt framhaldslíf í Kanada, hjá Skúla Mogensen. Þarna var mikill sköpunarkraftur. Þarna voru vísindamenn sem vildu verða listamenn og listamenn sem vildu verða vísindamenn. CCP er ágætt dæmi um þá sýn sem menn höfðu á það hvað tæknin gæti gert. Helsta vandamál Oz var að fyrirtækið var nokkuð á undan sinni samtíð. Í kringum 1996-98 vorum við að vinna að hugbúnaðargerð sem átti að þjóna sama tilgangi og forrit á borð við Skype, MSN og að einhverju leyti Facebook gera í dag. Þetta var öflug tækniþróun sem síðar var framkvæmd en þetta var bara á undan markaðnum. Það sem CCP er að gera í dag var líka skoðað á sínum tíma í Oz en á þeim tíma voru tölvurnar ekki til. Í dag erum við með tölvur sem hafa tugfalt meiri afkastagetu en þá. En Oz var gerjunarpottur og mikill skóli fyrir þá sem þar voru.“

---

Fyrir utan það að vera formaður bæjarráðs í Árborg stýrir hann fyrirtæki sem hyggur á frekari fjárfestingar í orkugeiranum. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Eyþór yfir tækifærin og möguleikana í grænni orkunýtingu. Þá tjáir Eyþór sig hispurslaust um skuldavanda og rekstur sveitarfélaga. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.