Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði sig úr stjórn Árvakurs, móðurfélags Morgunblaðsins, og um tíu annarra félaga þann 12. apríl samkvæmt tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Þar á meðal er Thorsil Holding, móðurfélag Thorsil, sem stefnir á að reisa kísilver í Helguvík.

„Ég hef verið að fara úr stjórnum fyrirtækja sem eru í rekstri og aðskilja mögulegan hagsmunaárekstur eins og ég hef talað fyrir,“ segir Eyþór í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef engin afskipti af Árvakri eða Morgunblaðinu og skipaði ekki varamann í minn stað,“ segir Eyþór. Hann er áfram stærsti hluthafi Árvakurs með tæplega 23% hlut. „En ef að ásættanlegt tilboð kemur í hlutinn má skoða það.“

Í samtali við Viðskiptablaðið í febrúar sagðist Eyþór vera að íhuga úrsögn úr stjórn Árvakurs. Með því væri hann að ganga lengra en margir. „Bæði sveitarstjórnarmenn hafa verið í alls konar rekstri, þingmenn hafa átt í fjölmiðlum og eiga held ég enn, en það kemur vel til greina að fara úr stjórn Árvakurs, þrátt fyrir að hún hafi engin afskipti af ritstjórn, bara til þess að það sé hafið yfir allan vafa.“