Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna segir að heimtur Viðreisnar út úr meirihlutaviðræðunum við meirihlutann í Reykjavík séu litlar. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur flokkurinn gengið inn í meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna sem áfram verður undir forystu Dags. B. Eggertssonar sem borgarstjóra . Útsvarið verður enn í hámarki þó fasteignaskattar verði lækkaðir um 0,05 prósentustig .

„Mér virðist Viðreisn fá afskaplega lítið fyrir sinn snúð miðað við stóru orðin,“ segir Eyþór, en flokkur hans varð stærstur í borgarstjórnarkosningunum með yfir 30% fylgi og 8 borgarfulltrúa.

„Það er ekki neitt í hendi, bara að það verði lagðar áherslur á hitt og þetta, en engin mælanleg markmið. Mér sýnist þetta í raun vera sama meirihlutinn, en þarna er Viðreisn búinn að taka við hlutverki Bjartrar framtíðar og meira að segja sett í sama stól, það er stól Bjartrar framtíðar í borgarráði, en það er sami borgarstjóri áfram, þannig að það er lítil breyting á.“

Ekkert í sáttmálanum fyrir ungt fólk í húsnæðisþörf

Eyþór segir að í stóru málum kosningabaráttunnar eins og húsnæðismálum sé lítil breyting á stefnunni sem var. „Það er ekkert í þessu fyrir ungt fólk, varðandi húsnæðismálin, en enn er verið að lofa inn í næsta kjörtímabil. Til dæmis er verið að lofa hagstæðu húsnæði fyrir ungt fólk, en í tengslum við Borgarlínu, sem verður ekki kláruð á þessu kjörtímabili,“ segir Eyþór sem jafnframt segir að önnur loforð flokkanna sem nú mynda meirihlutann séu sama marki brennd.

„Til dæmis stórloforð Samfylkingarinnar um að setja Miklubraut í stokk, það er ekkert í sjónmáli. Svo er viðleitni að minnka stjórnkerfið í oroð, en ég á alveg eftir að sjá það í borði, því það er svo óskýrt. Það er mjög ólíklegt að sama fólkið og hefur stækkað stjórnkerfið muni standa fyrir því að hagræða, ég hef enga trú á því.“

Hefur áhyggjur af aukinni einsleitni í miðborginni

Viðskiptablaðið fjallaði um það í morgun að meirihlutaflokkarnir hafa sammælst um að götunni yrði lokað fyrir bílaumferð allt árið um kring, en jafnframt er talað um að stækka göngusvæðið í kvosinni. „Það er kannski það helsta nýja þarna að nú á að loka Laugaveginum alveg, en það er eitt af því fáa sem er nýtt þarna,“ segir Eyþór sem segist hafa áhyggjur af miðborginni undir áframhaldandi stefnu meirihlutans.

„Bæði hefur íbúum fækkað gríðarlega í miðborginni á síðustu árum og verslunum hefur líka fækkað. Það er hætta á því að miðborgarmenningin verði enn þá einsleitari, sem er ekki gott því almenningur sem og ferðamennirnir vilja sjá það sem er reykvískt og íslenskt. Ég óttast að íbúarnir séu að gleymast, því það er alvarlegt mál að það hafi átt sér stað fólksfækkun í miðborginni.“

Vill vinna með sósíalistum

Spurður hvort það komi til greina að minnihlutinn sameinist um að kjósa í nefndir og ráð borgarinnar til að auka vægi sitt þar og fá fulltrúa þar segir hann svo vera þó ekkert hafi verið frágengið í þeim efnum enn.

„Við viljum vinna með öllum þeim sem vilja gagnrýna meirihlutann og beita sér fyrir breytingum. Við höfum aldrei útilokað neinn og viljum vinna með öllum sem vilja vinna með okkur,“ segir Eyþór og segir að þar með talið séu sósíalistar sem hafa lýst því yfir að þeir muni ekki fara í meirihlutasamstarf.

„Já það kemur alveg til greina. Það er ferskur blær yfir stjórnarandstöðunni og raddir sem þurfa að heyrast. Ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar að gagnrýna þennan gamla meirihluta sem nú fær endurnýjun lífdaga. Mér finnst það jákvætt að geta unnið saman en við eigum eftir að útfæra þetta, en við erum opin fyrir því.“