Eyþór Björnsson fiskistofustjóri segir nýja tilkynningu sjávarútvegsráðherra til starfsmanna Fiskistofu þýða að þeir sem séu í starfi í dag hjá stofnuninni geti verið eins lengi og hentar henni að þeir séu í starfi. Þegar þeir hætti verði svo ráðið í stöðurnar á Akureyri. Þetta segir hann í samtali við Morgunblaðið .

Eyþór segir jafnframt að það muni taka langan tíma að flytja starfsemina að öllu leyti norður á Akureyri. „Eðlileg starfsmannavelta hefur verið 6-10% á ári. Ef við horfum á stóran hluta þessara starfa sem falla þarna undir erum við að tala um 15-20 ár þangað til að ferlinu lýkur.“ Sjálfur mun hann flytja með stofnuninni til Akureyrar verði af flutningunum.

Hann segir tilkynningu ráðherra eyða allri óvissu um starfsöryggi starfsfólks Fiskistofu. Fólk hafi það í hendi sér að það geti haldið sínu starfi og verði ekki sett í þá stöðu að þurfa að flytja til Akureyrar eða missa vinnuna.