„Ég réð mig til ákveðins tíma til að byggja Skemmtigarðinn upp í það sem hann er í dag. Nú erum við komin á þann stað,“ segir Eyþór Guðjónsson sem í dag lét af störfum sem framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins í Smáralind. Hann ætlar að snúa sér að öðrum verkefnum. Ekki liggur fyrir hvað hann mun taka sér fyrir hendur. „Þetta er nýtt uppbyggingarverkefni sem mun vonandi skapa mörg ný störf,“ segir hann. Eyþór ætlar ekki að sleppa alfarið hendinni af Skemmtigarðinum og segir líklegt að hann setjist annað hvort í stjórn hans eða ráðgjafaráð. Kona hans, Ingibjörg Guðmundsdóttir, mun eftir sem áður stýra fjármálum Skemmtigarðsins.

Síðasta verk Eyþórs var að afhenda Fjölskylduhjálp í dag gjafabréf í Skemmtigarðinn fyrir 1,6 milljónir króna.

Haft er eftir Ásgerði Jónu Flosadóttur, starfandi formanni Fjölskylduhjálparinnar, í tilkynningu að gjafabréfið muni veita mörgum fjölskyldum gleði og ánægju yfir jólin.

Skemmtigarðurinn opnaði í nóvember í fyrra og var hann nýverið valinn „Besti innanhúss skemmtigarður heims 2012“ af IAAPA sem eru alþjóðleg samtök Skemmtigarða.