Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri og einn frambjóðenda í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar segir í Morgunblaðinu Reykvíkinga eiga heimtingu á greinargóðum skýringum á hvernig það gat gerst að neysluvatn í borginni yrði mengað.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá þurftu Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, að senda frá sér leiðréttan lista yfir hvaða hverfi hefðu orðið fyrir áhrifum af jarðvegsgerlamengun í neysluvatni sem tilkynnt hafði verið um nokkrum klukkustundum fyrr.

„Getur verið að fyrirbyggjandi viðhaldi hafi verið ábótavant? Hver ber ábyrgð á þessu?“ spyr Eyþór, en ljóst er að OR hafi unnið samkvæmt planinu svokallaða sem Eyþór segir að kallað gæti á kostnað á endanum vegna skorts á fyrirbyggjandi viðhaldi.

Dagur B. Eggertsson sagðist vera komin með gögn um málið á borðið hjá sér og hann hyggðist kynna sér þau vel og brugðist yrði við með viðeigandi hætti að því er mbl.is greinir frá.

Segir hann lærdóm af margra vikna skolpmengun í Faxaflóa vera að upplýsa um málin fyrr en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma lak óhreinsað skolp í flóann í fimm vikur í sumar án þess að borgarbúar fengju upplýsingar um það.„Við förum betur yfir þetta á morgun," segir Dagur. „En lærdómur umræðunnar í sumar var nú sá að upplýsa heldur meira heldur en minna.“