Eigendur hins rótgróna fjölskyldufyrirtækis J.R.J. verktaka, sem vinnur talsvert fyrir álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík, seldu um ármótin reksturinn. Kaupendurnir eru Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri Strokks Energy, og fyrirtækið Járn og blikk.

„Við keyptum tækin og yfirtókum samninga við Rio Tinto Alcan sem og aðra viðskiptavini,“ segir Eyþór og bætir því við að utan um reksturinn hafi verið stofnað nýtt fyrirtæki, sem nefnist JRJ verk. Allir starfsmenn J.R.J. verktaka munu starfa hjá nýja fyrirtækinu.

Eyþór og Járn og blikk eiga nýja fyrirtækið til helminga. Hann á 50% og Járn og blikk 50%. Eyþór segir að þessi fjárfesting hans tengist ekki Strokki Energy. Um kaupverðið segir hann: „Ég held við séum ekki að gefa upp hvað við greiddum enda er það trúnaðarmál."

Samkvæmt ársreikningi skiluðu J.R.J. verktakar ríflega 78 milljóna króna hagnaði árið 2013. Eignir félagsins námu 227 milljónum og eigið fé tæpum 190 milljónum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .