Eyþór Arnalds Oddviti Sjálfstæðismanna segir það koma vel til greina að hann segi sig úr stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. „Ég kem ekki nálægt ritstjórn Morgunblaðsins, ég sit þarna í stjórn móðurfélagsins, en stjórn Árvakur ritstýrir ekki Morgunblaðinu á nokkurn hátt,“ segir Eyþór sem telur sig ganga lengra í úrsögnum úr stjórnum en margir.

„Bæði sveitarstjórnarmenn hafa verið í alls konar rekstri, þingmenn hafa átt í fjölmiðlum og eiga held ég enn, en það kemur vel til greina að fara úr stjórn Árvakurs, þrátt fyrir að hún hafi engin afskipti af ritstjórn, bara til þess að það sé hafið yfir allan vafa.“

Eyþór segir það sérstakt að uppi séu kröfur um að hann segi sig úr sjórnum fyrirtækja því hann sé kjörinn oddviti flokks í framboði til borgarstjórnar en síðan megi hann ekki sitja fundi borgarstjórnar með þingmönnum kjördæmisins eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun.

„Ég er þegar búinn að segja mig úr stjórn iðnfyrirtækja, en nú vilja menn að ég segi mig úr stjórnum því ég er kjörinn fulltrúi, en á sama tíma má ég ekki tala við neinn því er ekki kjörinn fulltrúi.“