Kínverjar ætla að bjóða bandarískum fyrirtækjum betri aðgang að innri markaði landsins til þess að reyna að koma í veg fyrir viðskiptastríð milli landanna.

Stjórnvöld í Kína hafa boðið stjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta meðal annars betri markaðsaðgang fyrir fjármálafyrirtæki sem og fyrir nautakjötsframleiðendur í Bandaríkjunum.

Ákváðu Trump og Xi Jinping, forseti Kína, á fundi sínum í Flórida í síðustu viku að þeir þyrftu að setja í gang fríverslunarsamning milli landanna sem ætti að skila niðurstöðum innan 100 daga.

Gefa eftir auðvelda hluti

Samkvæmt frétt Financial Times um málið er frekar auðvelt fyrir kínversk stjórnvöld að gefa eftir aðgang að þessum tveimur vörum, en Bandaríkin eru stærsta viðskiptaríki Kína, en 347 milljarða dala árlegur viðskiptaafgangur Kína af viðskiptunum hefur verið nýttur til að slá pólitískar keilur í Bandaríkjunum.

Ríkin höfðu rætt um tvíhliða fjárfestingarsamning undir stjórn Obama, en Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki gefið upp hvort hann vilji halda áfram þeim samningaviðræðum.

Á meðan á kosningabaráttu forsetans stóð var hann mjög gagnrýnin á Kína og kínverska viðskiptastefnu og lét ýmis þung orð falla í garð kínverskra stjórnvalda.