Þrjár stjórnmálahreyfingar sem ekki náðu manni inn á þing í nýafstöðnum alþingiskosningum munu engu að síður fá tugi milljóna króna úr vösum skattgreiðenda á komandi kjörtímabili.

Samkvæmt fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir um 290 milljóna króna framlagi til stjórnmálaflokka en það fjármagn skiptist síðan hlutfallslega eftir fylgi flokkanna í kosningum.

Dögun fékk 3,1% fylgi í kosningunum í lok apríl og mun því að öllu óbreyttu fá tæpar 36 milljónir króna úr vösum skattgreiðenda á komandi kjörtímabili. Margrét Tryggvadóttir, fráfarandi þingmaður Hreyfingarinnar sem var í framboði fyrir Dögun í nýafstöðnum kosningum, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það innan flokksins hvernig ráðstafa skuli fjármagninu. Svipuð svör bárust frá Flokki heimilanna og Lýðræðisvaktinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .