Eimskip hefur samið um að fá 10 milljóna dala afslátt eða upp á rúman 1,1 milljarð króna af samningsverði tveggja nýrra gámaskipa sem verið er að smíða fyrir fyrirtækið í Kína.

Fram kemur í tilkynningu frá Eimskipi að samið hafi verið við skipasmíðastöð Rongcheng Shenfei í Kían árið 2011 um smíði á skipunum. Þau hafi upphaflega átt að afhenda á þessu ári. Nú liggi hins vegar fyrir samkomulag um að afhendingin dragist fram á seinni hluta næst árs. Af þeim sökum hafi verið samið um afslátt af kaupverðinu. Þá segir í tilkynningu að búið sé að greiða um 26 milljónir dala, jafnvirði þriggja milljarða króna af uppfærðu samningsverði. Kaupin eru fjármögnuð með eigin fé Eimskips og brúarláni frá  innlendum banka á byggingartímanum og með langtímafjármögnun frá erlendum banka.

Ánægður með afsláttinn

Í tilkynningunni er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að ánægjulegt sé að ná fram lækkun á kaupverði skipanna.

Hann segir:

„Þrátt fyrir tafir á afhendingu skipanna þá verða engar breytingar á nýju siglingakerfi félagsins og mun þetta ekki hafa áhrif á þjónustu félagsins við viðskiptavini. Það er einnig gott að finna fyrir því trausti sem Eimskip hefur áunnið sér frá hendi erlendra fjármálastofnana við fjármögnun verkefnisins, en félagið er með trygga langtímafjármögnun vegna nýsmíðinnar.“