Þrjár stofnanir, Skatturinn, sem varð til við sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra, auk skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, fá 200 milljóna króna aukið fjármagn á árinu.

Ástæðan eru aukin verkefni við eftirlit og varnir gegn peningaþvætti, skattrannsóknir og skatteftirlit til að framfylgja markmiðum ríkisstjórnarinnar um að auka traust á íslensku atvinnulífi.

Fjármögnunin nú var tryggð með millifærslum innan málaflokka og ráðstöfunum úr varasjóði, en ákvarðanir um viðvarandi hækkun gjaldheimilda verða svo teknar við gerð fjármálaáætlunar fyrir 2021 til 2025.

Samherjamál í Namibíu og grái listinn

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var Ísland sett á svokallaðan gráan lista FATF samtakanna yfir lönd sem uppfylla ekki skilyrði um aðgerðir gegn peningaþvætti, 18. október síðastliðinn.

Jafnframt bárust fréttir í fyrri hluta nóvember af meintum mútugreiðslum Samherja í afríkuríkinu Namibí u til handa ráðherrum í sósíalískum ríkisstjórnarflokki landsins sem ríkt hefur frá sjálfstæði. Sá flokkur, SWABO, gerði sér lítið fyrir og sigraði kosningar viku eftir birtingu frétta um málið.

Brást ríkisstjórn Íslands við málunum með yfirlýsingu mánuði eftir að við vorum komin á gráa listann svokallaða, og um viku eftir að Samherjamálið komst í hámæli, um aðgerðir sem fólu í sér að auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja, sem og í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja.

Jafnframt að stuðla ætti að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi, ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót, tryggja viðbótarfjárveitingu til skattrannsókna, varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum auk þess að bregðast við viðbrögðum erlendis frá vegna Samherjamálsins.