*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 25. október 2017 12:25

Fá 30 milljarða fyrir Refresco

FL Group er talið hafa keypt upphaflegan eignarhlut í Refresco á 40 til 50 milljarða króna.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Ferskur Holding, félag í eigu Stoða áður FL Group, sem eiga 14,53% hlut í drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Gerber, fá tæpa 30 milljarða króna fyrir hlutinn eftir að stjórn Refresco samþykkti 200 milljarða króna yfirtökutilboð í félagið. Yfirtökutilboðið, sem gert er af frönskum og kanadískum fjárfestum, nemur 1,62 milljarði evra að því er fram kemur á vef FT

Er um 41% álag á lokaverð félagsins 5. apríl síðastliðinn, daginn áður en PAI Partners gerði yfirtökutilboð sitt, og um 22% álag á meðalgengi félagsins síðan Refresco tilkynnti um kaup á kanadíska gosdrykkjafyrirtækinu Cott Corporation. Það gerir tæpa 200 milljarða íslenskra króna en tilboðið hljómar upp á 20 evrur á hlut að því er Morgunblaðið greinir frá.

Framkvæmdastjóri Refresco Gerber, Hans Roelefs, segir að yfirtökutilboðið sem gerir ráð fyrir að markaðsvirði Refresco sé 3,3 milljarðar evra eða 411 milljarðar króna, miði við eðlilegt verð fyrirtækisins. Hjá Refresco eru 3.500 starfsmenn en hagnaður þess nam 82 milljónum evra á síðasta ári. Fyrirtækið er stærsta átöppunarfyrirtæki safa og gosdrykkja í Evrópu.

Áður en Refresco sameinaðist Gerber Emig í nóvember 2013 hafði FL Group átt um 40% hlut í gamla Refresco, en þegar fréttir bárust af kaupum FL Group á félaginu í apríl 2006 var búist við að kaupverðið hefði verið á bilinu 40 til 50 milljarðar króna.

Stikkorð: Stoðir FL Group Refresco