Sveitarfélögin fá samanlagt 35,4 milljarð króna vegna fasteignaskatta á þessu ári. Tekjur sveitarfélaganna vegna þessa námu 33,1 milljarði í fyrra og hækka því um 2,3 milljarða króna á milli ára eða um 7%. Að stærstum hluta má rekja tekjuaukninguna til breytinga á fasteignamati á landinu öllu.

Að meðaltali hækkaði fasteignamat um 5,8% milli áranna 2015 og 2016. Þessu til viðbótar hækkuðu sum sveitarfélög álagningarprósentuna milli ára. Fasteignaskattar eru næststærsti tekjustofn sveitarfélaganna á eftir útsvarinu.

Fimm sveitarfélög hækkuðu álagningarprósentu vegna íbúðarhúsnæðis á milli ára en fimm lækkuðu hana. Hlutfallslega hækkuðu skatttekjur í Hafnarfjarðarbæjar vegna fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði um 33%. Tekjurnar námu ríflega 853 milljónum króna árið 2015 en fara í 1.131 milljón á þessu ári. Hækkunin nemur tæpum 279 milljónum. Í Grýtubakkahreppi hækka tekjurnar um 29% en þar fara þær úr 12,5 milljónum í 16,1 milljón. Í Reykjavík hækka skatttekjur af íbúðarhúsnæði um 302 milljónir eða 10%.

Í fjórtán sveitarfélögum lækka skatttekjurnar milli ára. Bæði Hafnarfjarðarbær og Grýtubakkahreppur eru á meðal þeirra fimm sveitarfélaga sem hækkuðu álagningarprósentuna á milli ára. Í Reykjavík stóð hún í stað eða í 0,2%. Álagningarprósenta vegna íbúðarhúsnæðis er hvergi lægri en í borginni. Tekjuaukninguna Í Reykjavík má því að mestu leyti rekja til hækkunar fasteignamats en meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu nam 8,5% milli áranna 2015 og 2016.

Fasteignaskattar
Fasteignaskattar

Viðskiptablaðinu barst athugasemd frá Grýtubakkahreppi. Í henni segir að sveitarfélagið hafi vissulega hækkað álagningarprósentu fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði en að á móti hafi lóðarleiga, vatnsgjald og sorphirðugjald verið lækkað. Þetta þýði að í heildina séu álögur á fasteignir í sveitarfélaginu óbreyttar milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .