*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Erlent 30. október 2020 09:18

Fá 60 milljarða afslátt af Tiffany

Móðurfélag Louis Vuitton semur um að borga minna fyrir skartgripasalann og fyrirtækin setja hatrammar deilur til hliðar.

Ritstjórn
Bernard Arnault er forstjóri LVMH Moët Hennessy Louis Vuitton sem nú kaupir TIffany & Co.
epa

Franska tískuvörufyrirtækið LVMH Moët Hennessy Louis Vuitton hefur hætt við að hætta við kaup á bandaríska skartgripaframleiðandanum Tiffany & Co, í staðinn fyrir að fá 425 milljóna dala afslátt af upphaflegu kaupverði, eða sem samsvarar rétt tæplega 60 milljörðum íslenskra króna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun október vildi franska fyrirtækið, LVMH eins og það er venjulega skammstafað, rifta tæplega 17 milljarða dala, eða andvirði ríflega 2.343 milljarða íslenskra króna, samningi um kaup á Tiffany í kjölfar breyttra forsenda vegna kórónuveirufaraldursins.

Gengið var frá yfirtökutilboði franska fyrirtækisins í það bandaríska fyrir hartnær ári síðan þegar LVMH hækkaði tilboð sitt úr 120 dölum á hlut í 135 dali á hlut. Eins og Viðskiptablaðið fór yfir frá á sínum tíma hafði rekstur hins ríflega tveggja alda gamla bandaríska fyrirtækis gengið illa eftir að ekki gekk eftir að veðja í kínverska auðmenn.

En babb kom í bátinn í samningum fyrirtækjanna tveggja í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins og fór LVMH í mál við Tiffany til riftunar á samningnum á þeim forsendum að Tiffany hefði tekið slæmar viðskiptaákvarðanir á veirutímum, auk krafna franskra stjórnvalda í kjölfar hættu á að bandarísk stjórnvöld myndu setja tolla á fyrirtækið.

Elsti hlutinn frá 16. öld

Milljarðamæringurinn Bernand Arnault er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en hann leiddi sameiningu Louis Vuitton (stofnað 1854) og Moët Hennessy árið 1987, en það síðarnefnda varð aftur til við sameiningu árið 1971 milli kampavínsframleiðandans Moët & Chandon og koníaksframleiðandans Hennessy.

LVMH samsteypan stýrir nú um 60 dótturfélögum sem hver er með nokkurn fjölda lúxusvörumerkja, eða 75 í heildina, en þar af er elsta merkið vínframleiðandinn Château d'Yquem, sem stofnaður var árið 1593.

Arnault segist nú vera sannfærður um möguleika vörumerkja Tiffany og hann „trúi því að LVMH sé rétta heimilið fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess nú þegar í hönd fara spennandi tímar,“ að því er haft er eftir honum í Guardian.

Auk samkomulagsins nú þar sem samið var um að yfirtökuverðið yrði lækkað í 131,5 dali á bréf var samið um að ljúka málaferlum fyrirtækjanna, en Tiffany hafði kært félagið fyrir samningsbrot fyrir bandarískum dómstólum.

Sagt hafa fengið lítinn afslátt

Vitnað er í greinendur sem hafa uppi spurningarmerki yfir því að LVMH hafi farið út í jafnhatrammar deilur og raun bar vitni milli fyrirtækjanna sem fram fóru fyrir opnum tjöldum fyrir ekki meiri afslátt en raun bar vitni á kaupverðinu.

Markmiðið með samningnum, auk þess að stöðva dýr málaferlin, er að styrkja smæsta lúxusvörumerkjageira LVMH, það er á skartgripamarkaðnum, en þar eru fyrir vörumerkin Bulgari og Tag Heuer, auk þess að styrkja stöðu þess á Bandaríkjamarkaði.

Verslun Tiffany í New York er enn í dag þekkt sem staðurinn til að fara á til að kaupa trúlofunarhringa að bandarískum sið, en þar ólíkt því sem alla jafna gildir hér á landi og víða í Evrópu, setur einungis konan upp slíkan hring og þá með steini á en ekki einfaldan baug eins og hefðin er fyrir í Evrópu.

Síðan er annar hringur keyptur fyrir giftinguna öfugt við hér þar sem trúlofunarhringarnir eru settir upp á annarri hendi, þó það virðist vera sitt á hvað eftir því hvort fólk fari eftir engilsaxneskri eða meginlandshefð hvor hendin er fyrir valinu í hvoru tilfellinu.