Fyrirtækið Authenteq, sem er með starfsemi í bæði Reykjavík og Berlín, hefur safnað nýju hlutafé fyrir 5 milljónir Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 606 milljónum íslenskra króna. Kemur hlutafjáraukningin til viðbótar við 1,3 milljóna dala  hlutafjáraukningu fyrir um ári sem Viðskiptablaðið greindi frá .

Meðal þekktra fjárfesta sem standa að fyrirtækinu er Tim Draper sem fjárfest hefur í mörgum þekktum erlendum tæknifyrirtækjum, en stofnendur Authenteq eru þeir Kári Þór Rúnarsson, Rúnar Karlsson og Adam H. Martin. Draper Associates og capital300 voru meðal stærstu fjárfestanna.

Félagið stendur að rafrænum skilríkjum sem hægt er að nota hvar sem er í heiminum, og nýtir það til þess sömu bálkakeðjutækni og til að mynda rafmyntin Bitcoin byggir á. Kosturinn við tæknina er að hægt er að geyma upplýsingar um viðskiptin í kóðanum sjálfum.

Kári lýstir lausninni sem þeirri hraðvirkustu sem er á markaðnum í dag, og hún standist allar kröfur um að koma í veg fyrir peningaþvætti. Lausnin kom á markað undir lok síðasta árs og hefur hún þegar fengið tylftir viðskiptavina. Tim Draper trúir því að lausn Authenteq sé byrjunin á því sem hann kallar hreint og satt auðkenni, sem geti útrýmt helstu örygissáhyggjum á markaðnum í dag. „Varan þeirra er einföld og glæsileg.“

Prófuðu hvort fjárfestarnir hefðu hugsunarhátt frumkvöðla

Fyrirtækið hefur í dag 21 starfsmann í bæði Berlín og hér í Reykjavík, en Kári Þór segir ástæðuna fyrir því að félagið ákvað að vera með hlutabréfaútboðið í tveimur hlutum ákveðna prófraun að því er fram kemur á Northstack.is .

„Við vorum kynnt fyrir fjárfesti sem héldi í hugsunarhátt frumkvöðlana um að klára hlutina, og töldum við það vera fína prófraun að klára áreiðinleikakannanir og pappírsvinnu innan tveggja vikna,“ segir Kári.

„Þetta var eins konar tilraun hjá okkur til að sjá hvort þeir væru í raun jafn sveigjanlegir og viðbragðsfljótir og þeir sögðust vera í viðræðunum. Það kom okkur satt að segja á óvart hve vel þetta gekk, þrátt fyrir mjög ítarlega áreiðanleikakönnun og lagaferli.“